Blús bræður í Bílaklúbbnum

Blues Brothers (1980)

Leikstjóri: John Landis
Aðalleikarar: John Belushi, Dan Aykroyd, Carrie Fisher

Þessi mynd hefur allt; lengsta bílaeltingarleik sögunnar, skærustu stjörnur blús- og sálartónlistarinnar; James Brown, John Lee Hooker, Ray Charles og Arethu Franklin og síðast en ekki síst hjartnæma… sögu af blúsbræðrunum sem leggja allt í sölurnar til að safna 5000 dollurum til bjargar munaðarleysingjahæli.
Arnar Már Arngrímsson
Formaður KvikYndis

Sýningartími: 133 mín
Mættu – Horfðu – Njóttu

Tími: Föstudagurinn 11. ágúst kl. 21:00
Staðsetning: Salur Bílaklúbbs Akureyrar, Hlíðarfjallsvegur 13

Við erum hluti af Listasumri!
#listasumar #kvikyndi

Eigi skaltu hornkerling vera

Dirty Dancing (1987)
Leikstjóri: Emile Ardolino
Aðalleikarar: Jennifer Grey, Patrick Swayze

Árið er 1963. Unglingsstúlkan Frances „Baby“ Houseman er í fríi með fjölskyldunni í Catskill-fjöllunum. Framtíð hennar er ráðin, hún á að fara í skóla, ganga síðan í friðarsveitirnar og giftast lækni. Danskennarinn Johnny Castle hristir hins vegar upp í heimsmynd hennar…
Þeir sem sáu Top Gun í síðustu viku með nýfengnum hinsegin gleraugum urðu eflaust hissa á sterkum hinsegin dráttum myndarinnar. Nú er spurning hvort Dirty Dancing leyni líka á sér? Fleyg eru eftirfarandi orð Johnny Castle: „Nobody puts Baby in the corner“ (þýs. „Niemand stellt Baby in die Ecke). Það er freistandi að líta svo að um vísun í Njálssögu sé að ræða, en Hallgerður langbrók reyndi að verja veika stöðu sína með orðunum „Engi hornkerling vil eg vera“ þegar þjóðfélagið vill traðka á henni. Áhugavert er að túlka orð Johnnys („Eigi skaltu hornkerling vera“) sem stuðningsyfirlýsingu fyrsta karlfemínistans…

Sýningin fer fram í Deiglunni föstudaginn 4. ágúst kl. 21:00

Mættu – Horfðu – Njóttu

Þorirðu?

KvikYndisListaSumar kynnir:

Top Gun (1986)
Leikstjóri: Tony Scott
Aðalleikarar: Tom Cruise, Kelly McGillis, Val Kilmer, Anthony Edwards

Þorirðu?
Þorirðu að stíga aftur til 9. áratugarins þegar Ameríka glansaði, þegar leikari var forseti Bandaríkjanna og Vigdís talaði tungum og fyrir náttúruvernd, þegar við vorum áskrifendur að Mogganum og Stöð 2 bjargaði okkur frá meintum leiðindum? Þegar víglínurnar virtust augljósar og kapítalisminn lofaði taumlausri gleði fyrir alla?
Hefurðu taugar í hvíta tanngarða og permanent og Take My Breath Away?
Hvernig væri að taka sér frí frá flækjum netsins og stíga út úr þokunni og leyfa sér að falla í faðm eitísins með ljósabekkjunum, fegurðardrottningunum og Ameríku eins og hún var…
Í guðanna bænum, ekki, ekki leggjast í grúsk um myndina á netinu. Hvernig voga þeir sér? Nú eru einhverjir spekingar farnir lesa allan andskotann út úr myndinni, meira segja að hún sé hómó-erótískt meistaraverk. Það skyldi þó ekki vera.

Staður og stund:
28. júlí 2017 kl. 21:00
Flugsafn Íslands, Akureyri

Sungið í rigningunni

Áfram heldur samstarfið við Listasumar og nú er komið að því að sýna í samkomusalnum á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð.

Singin’ in the Rain (1952)
Líklega þekkir öll heimsbyggðin atriðið þar sem Gene Kelly dansar og syngur í rigningunni.

Nú gefst tækifæri til að sjá þessa frægu dans- og söngvamynd í allri sinni dýrð næstkomandi föstudag kl. 16.00 og það í samkomusalnum á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Hlíð.

Í hléi verður boðið uppi á kaffi og kleinur.

Sýningin hefst kl. 16:00 og sýningartími er 103 mín


Mættu – Horfðu – Njóttu

Við erum hluti af Listasumri!
#listasumar #kvikyndi

Föstudagssýning – The Shining

The Shining (1980) eftir Stanley Kubrick, byggð á samnefndri skáldsögu Stephen King, er víða ofarlega á listum yfir bestu hryllingsmyndir allra tíma. Ég horfi ekki á hryllingsmyndir – ég held mikið upp á The Shining. Ástæðan gæti verið sú að hún er ein af fáum myndum sem fjalla um hrylling ritstarfanna og einverunnar.

Það hljómar í fyrstu eins og góð hugmynd að rithöfundurinn Jack grípi tækfærið og gerist gæslumaður afvikins hótels, og taki fjölskyldu sína með. Jack sér fyrir sér náðuga daga við ritvélina. En það er gömul saga að við fáum ekki flúið okkur sjálf og viðkvæmt geðið, þráhyggjan og alkóhólisminn fylgja Jack. Einhver staðar er öxi.

Ég þorði fyrst að horfa á The Shining þegar ég var 18 ára og síðan hef ég séð hana 2-3 sinnum en aldrei í góðum gæðum á stóru tjaldi (fyrr en nú). Þau eru mörg atriðin í myndinni sem sækja á mann; óhugnaðurinn felst ekki í pyntingum og fjöldamorðum heldur þrúgandi andrúmslofti, óþægilega fallegum skotum og ágengri tónlist.
Jack Nicholson keyrir myndina áfram með offorsi og Shelley Duvall leikur ekki, hún einfaldlega ER og ótti hennar verður okkar ótti.

Myndin verður sýnd kl. 17 næstkomandi föstudag í Rósenborg (Gamla hátíðarsal barnaskólans á fjórðu hæð).

Arnar Már Arngrímsson

Tilsammans – til minningar um Michael Nyqvist

Föstudaginn 30. júní klukkan 17:00 í Ketilhúsi

Tilsammans er mynd eftir hinn stórgóða sænska leikstjóra Lucas Moddysson sem kom út árið 2000 en tveimur árum áður hafði Moddysson vakið heimsathygli fyrir myndina Fucking Åmål.

Einn af aðalleikurum myndarinnar er Michael Nyqvist sem lést nú í byrjun vikunnar og því þótti vel við hæfi að rifja upp stórgóða frammistöðu Michaels í hlutverki drykkju- og ofbeldismannsins Göran sem missir frá sér konu og börn og endurmetur í kjölfarið líf sitt.

Það er árið 1975 og kona Görans og börn eignast samastað í kommúnunni Tilsammans en þar ræður hippastemmningin ríkjum. Friðurinn og ástin rista þó ekki alltaf jafn djúpt og ýmsum spurningum um hippalífið er velt upp í myndinni.

 

Stjörnustríð á Jónsmessuhátíð

 

Stjörnustríð. Star Wars; orð eru nánast óþörf. Fyrsta myndin kom út 1977 og fljótlega varð til þetta poppmenningarskrýmsli sem öll heimsbyggðin þekkir. Enn ein kynslóð barna á sér þann draum að eignast geislasverð og lítur á Loðinbarða (Chewbacca…) og R2-D2 sem vini sína.
Nú gefst tækifæri til að sjá fyrstu þrjár Stjörnustríðsmyndirnar á maraþonsýningu í Ketilhúsinu á milli 02-08 aðfararnótt laugardags.

Heimildarmyndir á Nordic ruralities

Þessa dagana fer í Háskólanum á Akureyri fram fjórða alþjóðlega ráðstefnan um Norræn byggðamál. KvikYndi er samstarfsaðili ráðstefnunnar og á morgun (þriðjudaginn 24. maí) verða sýndar fjórar heimildarmyndir sem fjalla um líf og störf fólks í afskekktum byggðum á Norðurslóðum.

Akureyringum er boðið að koma og horfa á myndirnar án þess að hafa skráð sig eða greitt ráðstefnugjald. Í viðhengi er yfirlit yfir myndirnar og tímasetningar.

Við viljum ekki síst vekja athygli á myndinni Veðrabrigði eftir Ásdísi Thoroddsen en hún fjallar um breytingar á samfélaginu Flateyri við Önundarfjörð í kjölfar setningar kvótakerfisins.

Myndirnar eru á ýmsum tungumálum en allar textaðar með enskum texta.

 

Screening of Documentaries
May 24, 13:50 – 17:05 Auditorium

Organizer
Sóley Björk Stefánsdóttir, soleybs@gmail.com
Kvikindi – Akureyri Cinema Club, Iceland

13:50 – 14:25 (34 mín)

The Way to Arctic Glass Studio
Kristin Nicolaysen, krinico@gmail.com
Nicolaysen Film AS, Norway

14:30 – 14:55 (25 mín)

Our Own Car Repair Shop!
Kristin Nicolaysen, krinico@gmail.com
Nicolaysen Film AS, Norway

15:00- 15:40  (38 mín)

Lets Build a Waterfall!
Anniken Førde, anniken.forde@uit.no
Trond Waage, trond.waage@uit.no
University of Tromsø – The Arctic University of Norway

15:45 – 17:05 (80 mín)

We are Still Here
Ásdís Thoroddsen, asdis@gjola.is
Seylan ehf, Iceland

Lokadagar Frönsku kvikmyndahátíðarinnar

Þá er komið að lokahnykknum á Frönsku kvikmyndahátíðinni. Fjórar sýningar verða um helgina. Sjá má nánari lýsingar á myndunum hér neðar á síðunni. Almennt miðaverð er 1450 kr en nemar fá miðann á 800 kr. gegn framvísun skólaskírteinis.

Laugardagurinn 23. janúar

16:00 – Quai d‘Orsay / Ráðherrann (2013, 113 mín, enskur texti)

18:00 – Les Souvenirs / Minningar 

 

Sunnudagurinn 24. janúar

16:00 – Hyppocrate 

18:00- Quai d‘Orsay / Ráðherrann 

Mætið, horfið og njótið!

Frönsk kvikmyndahátíð á Akureyri 2016

Franska sendiráðið á Íslandi, Alliance Francaise í Reykjavík, Kvikmyndaklúbburinn KvikYndi o.fl. kynna Franska kvikmyndahátíð á Akureyri dagana 17.-24. janúar. Sýningar fara fram í Borgarbíói Akureyri  og verða myndirnar sýndar ýmist með íslenskum eða enskum texta. Þetta er í sjötta sinn sem hátíðin er haldin á Norðurlandi.

ATH almennt miðaverð er 1450 kr en nemar fá miðann á 800 kr gegn framvísun skólaskírteinis

 

Mánudagurinn 18. janúar

18:00 –  Les Souvenirs / Minningar (2014, 92 mín, enskur texti)

Frábærlega skemmtileg og ljúf mynd, byggð á verðlaunaskáldsögu David Foenkinos. Við kynnumst hér hinum 23 ára gamla Romain sem starfar sem öryggisvörður en dreymir um að verða rithöfundur. Segja má að besti vinur hans sé amma hans, Madelaine, sem dvelur á elliheimili en er frjáls sem fuglinn í huga sér. Dag einn lætur hún sig hverfa sporlaust frá heimilinu og það kemur í hlut Romains að finna út hvað af henni varð.

 

 

Þriðjudagurinn 19. janúar

18:00 –  Les Souvenirs / Minningar (2014, 92 mín, enskur texti)

 

Miðvikudagurinn 20. janúar

17:50 –Hyppocrate  (2015, 102 mín, enskur texti)

Benjamín er handviss um að hann sé að verða merkilegur læknir. Þegar hann hefur starfsnám á deildinni hjá föður sínum þá fara hlutirnir á allt annan hátt en hann bjóst við. Verklegi hluti læknisfræðinnar reynist mun vandasamari heldur en sá bóklegi. Ábyrgðin er yfirþyrmandi, faðir hans er fjarverandi og Abdel, samnemandi hans, er erlendur læknir og mun reyndari en hann. Benjamín verður að takast á við eigin takmörk, ótta sinn og sjúklinganna og fjölskyldna þeirra.

 

Fimmtudagurinn 21. janúar

18:00 – Quai d‘Orsay / Ráðherrann (2013, 113 mín, enskur texti)

Bráðfyndin pólitísk háðsádeila eftir einn fremsta leikstjóra Frakka, Bertrand Tavernier. Hér kynnumst við ungum manni að nafni Arthur sem er ráðinn til að skrifa ræður fyrir franska utanríkisráðherrann Alexandre Taillard de Worms, en sá er ótrúlega umsvifamikill í heimsmálunum og lætur sér ekkert fyrir brjósti brenna þegar hagsmunir Frakka og ráðuneytis hans eru annars vegar.

Myndin er gerð eftir teiknimyndasögu Christophes Blains og Abels Lanzaks. Alexandre Taillar de Worms er mikill og merkilegur maður, hann geislar af orku, nýtur kvenhylli og er meira að segja utanríkisráðherra í menningarlandinu Frakklandi. Hann er alls staðar sýnilegur, fagurvaxinn og útitekinn með mikinn silfraðan makka. Hann sést jafnt í ræðustól hjá Sameinuðu þjóðunum í New York sem og í púðurtunnunni í Oubanga, þar sem hann tekur valdamenn á beinið og kallar til helstu andans jöfra til að koma á friði, róa unga ofstopa og búa í haginn fyrir allsherjarfriðarverðlaun Nóbels.

Ungur háskólastúdent, Arthur Vlaminck, sem er að semja doktorsritgerð, ræðst til starfa við utanríkisráðuneytið. Hans helsta hlutverk er að semja ræður fyrir ráðherrann. Hann þarf að takast á við kenjar ráðherrans og alla hirðina í kringum stórmennið, finna sér sess á milli ráðuneytisstjórans og aðstoðarmannanna sem lifa og hrærast í ráðuneytinu, þar sem streita, metnaður og hnífstungur í bakið eru daglegt brauð.

 

Föstudagurinn 22. janúar

18:00 – Út og suður / Babysitting 2 (2015, 93 mín, íslenskur texti)

 

Gamanmyndin Út og suður er eftir þá Philippe Lacheau og Nicolas Benamou og leikur sá fyrrnefndi jafnframt eitt aðalhlutverkið, Frank. Þetta er ærslafull og sprenghlægileg mynd þar sem franskur húmor nýtur sín til fulls.

Sonia og Frank eru par og Soniu finnst tími til kominn að sinn tilvonandi hitti loksins föður hennar, Jean-Pierre sem rekur umhverfisvænt hótel í Brasilíu. Þetta verður til þess að tveir bestu vinir Franks ákveða að nota tækifærið, slá nokkrar flugur í einu höggi og skella sér með í draumafríið.

Einn morguninn ákveða strákarnir í hópnum að fara í dálítinn könnunarleiðangur inn í Amazon-frumskóginn og að beiðni Jeans-Pierre taka þeir móður hans með, skassið Yolöndu sem getur engan veginn talist hvers manns huglúfi. Ekki vill betur til en svo að þau hverfa öll sporlaust, eða svo gott sem, því þegar Sonia og faðir hennar fara að leita að þeim daginn eftir finna þau litla upptökuvél sem strákarnir höfðu haft meðferðis og á efnið á henni eftir að leiða í ljós hvað það var sem olli hvarfi þeirra – og skassins – eða þannig.

 

Laugardagurinn 23. janúar

18:00 – Quai d‘Orsay / Ráðherrann (2013, 113 mín, enskur texti)

18:00 – Les Souvenirs / Minningar 

 

Sunnudagurinn 24. janúar

15:50 – Hyppocrate (sjá lýsingu hér að ofan)

18:00- Quai d‘Orsay / Ráðherrann (sjá lýsingu hér að ofan

Mætið, horfið og njótið!