Aðalfundur og Paradís

Jæja, aðalfundur gekk vel, það var óvenju góð mæting, mikill áhugi á að byggja upp virkara starf í klúbbnum. Aðalfundurinn var reyndar ansi óformlegur og í stað þess að skipa tvo nýja aðila í stjórn var samþykkt að allir sem mættu, sem og bara almennt allir þeir sem áhuga hafa á starfinu, skipi óformlega stjórn en það er svo auðvitað formannsins að skipta verkum og sjá til þess að keyra starfið áfram.

Rætt var um að sýna í haust fimm myndir eftir ítalska leikstjórann Antonioni. Ákveðið var að sýningartími væri fimm föstudaga í röð klukkan 17. Það er alltaf örlítið erfitt að finna tíma þar sem allir komast en viðstaddir voru sammála því að þessi tímasetning gæti hugsanlega komist nálægt því.

Formaður hafði haft samband við framkvæmdastjóra Bíó Paradís sem var jákvæð fyrir samstarfi þótt hún vildi taka fram að mest verði hugað að uppbyggingu bíósins í Reykjavík og rekstur þess tæki mesta kraftana, að minnsta kosti til að byrja með. En á aðalfundinum var ákveðið að við í KvikYndi yrðum dugleg við að koma á framfæri þeim viðburðum sem eru í gangi í Bíó Paradís, enda ekki bregðum við Akureyringar okkur annað slagið til borgarinnar.

Einnig var rætt um að efla tengslin við annað kvikmyndaáhugafólk á landsbyggðinni og með aukinni þátttöku félagsmanna í starfinu er möguleiki að fara að sinna því betur. Ef einhver sem þetta les þekkir til annarra kvikmyndaklúbba, formlegra eða óformlegra, á landsbyggðinni má sá hinn sami endilega senda upplýsingar um það í tölvupósti á kvikyndi@kvikyndi.is

Ekkert varð af samstarfi við RIFF kvikmyndahátíðina að þessu sinni, það virðist sem aðstandendur hátíðarinnar einblíni mest á hátíðina sjálfa sem fram fer á höfuðborgarsvæðinu en hafi takmarkaðan áhuga á landsbyggðinni, en við hugsum okkur að þrýsta betur á um að finna samstarfsfleti.

Nú, sem áður, er verið að vinna í því að finna heppilegan sýningarsal fyrir reglubundnar sýningar. Það er ákveðin vonarglæta í sjónmáli með það og við munum tilkynna það með pompi og pragt um leið og við getum farið að hefja sýningar, sem við vonumst til að verði mjög fljótlega.

En nú vil ég nota tækifærið og koma á framfæri spennandi dagskrá sem er framundan hjá Bíó Paradís. Það er í tilefni þess að kvikmyndaverðlaun Norðulandaráðs hafa nýlega verið afhent, að framundan eru sýningar á eldri myndum þeirra leikstjóra sem tilnefndir voru til verðlaunanna og í framhaldi verða svo allar myndir sem tilnefndar voru sýndar. Fylgist vel með á síðu Bíó Paradísar. Beinn hlekkur á fyrrnefnda dagskrá er hér

Með kveðju,
Sóley Björk Stefánsdóttir, formaður

Leave a Reply