Fundargerð Aðalfundar 2012

Aðalfundur KvikYndis – kvikmyndaklúbbs Akureyrar haldinn á Amts-kaffi 31. maí 2012

  • Skýrsla formanns fyrir starfsárið 2011-2012:

Kæru félagar.

Síðasta starfsár hjá okkur í KvikYndi var nokkuð öflugt, fundir voru vikulega til að byrja með, en þeim fækkaði svo í aðra hverja viku. Félagar skiptust á að velja mynd til að sýna og vakti það mikla lukku, og þrátt fyrir að aðgengi á fundarstaðinn hafi ekki verið sem þægilegast, þá mættu nú oftast þessi svipaði kjarni, 5-10 manns í Listagilið, en fundir voru haldnir heima hjá undirrituðum í Kaupvangsstræti 23.

Formaðurinn ákvað að hanna lítið fréttabréf, og senda það út með hefðbundnum fundarboðum, en í því var ýmisskonar fréttir og fróðleikur og held ég að það tekist vel til, félagsmenn sýndu jákvæð viðbrögð.

Á árinu fóru KvikYndi, Menningarhúsið Hof og Bíó Paradís í Reykjavík í samstarf og hófu miðvikudagssýningar í Hamraborg, stóra salnum í Hofi, og var fyrsta sýning 21. september en þá var sýnd bresk klassík mynd, Rauðu skórnir frá árinu 1948, og voru sýningargestir yfir sig ánægðir með framtakið og lofaði þetta góðu um áframhaldandi sýningar í Hofi.
Eftir þessa sýningu hafði Steinþór Birgisson samband við starfsfólk í Hofi og við sýndum heimildarmynd eftir hann, Jón og séra Jón, við miklar og góðar undirtektir, svo góðar að ákveðið var að setja aukasýningu. Báðar þessar sýningar voru vel sóttar.
Í október sýndum við svo Borgarljós eftir Chaplin.

Á þessu ári voru sýndar myndirnar Superclásico 22. febrúar og Partir 21. mars

Við settum svip á Akureyrarvöku, komum okkur fyrir í “langa gangi” í Listagilinu og sýndum yfir daginn stuttmyndir frá stuttmyndakeppninni Stulla, sem er fyrir ungmenni á aldrinum 14-25 ára. Svo um kvöldið voru sýndar fjórar stuttmyndir eftir Filmumenn, hóp fólks sem gerðu stuttmyndir á árunum 1991-1995. Ágætis mæting var á þessa hátíð og var gaman að sjá fólk koma og skemmta sér vel yfir þessum myndum.

Undirritaður vonar svo, þrátt fyrir að hann sé að flytja tímabundið úr bænum að komandi stjórn haldi lífi í klúbbnum og samstarf KvikYndis, Menningarhússins Hofs og Bíó Paradísar haldi áfram,

ég kem aftur til Akureyrar,

Sigurjón Már fráfarandi formaður KvikYndis.

  • Farið var yfir fjárhagsstöðu og reikningar samþykktir
  • Kjöri stjórnar var frestað til auka-aðalfundar sem haldinn verður 7. ágúst 2012 á Amts-kaffi kl. 17 en bráðabirgðaformaður var kjörinn Bjarki Hilmarsson
  • Önnur mál

Fundurinn sendir frá sér ályktun svo hljóðandi:
Aðalfundur KvikYndis kvikmyndafélags Akureyrar harmar það að Kvikmyndasafn Íslands skuli ekki sinna þeirri sjálfsögðu skyldu sinni að þjónusta þá sem búa utan höfuðborgarsvæðisins.  Telur félagið brotið felast í því að neita samstarfi við KvikYndi – Kvikmyndaklúbb Akureyrar

Leave a Reply