Nú byrjar ballið

Nú eru þau gleðitíðindi staðfest og skrifuð í stein að KvikYndið fær að halda félagasýningar í Samkomuhúsinu (Leikhúsinu) tvisvar í mánuði í vetur. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir

Fyrsta sýningin verður nú á mánudaginn, 22. október kl. 20:00 og það er myndin The Man Without a Past eftir finnska leikstjórann Aki Kaurismäki en tilefni þess að sú mynd varð fyrir valinu er að á morgun, föstudag, frumsýnir Leikfélag Akureyrar leikritið Leigumorðingjann sem unnið er eftir samnefndri mynd eftir Kaurismäki.

Myndin The Man Without a Past fjallar um mann sem verður fyrir líkamsárás nýkominn til Helsinki og missir í kjölfarið minnið. Hann getur hvorki fengið starf né íbúð þar sem hann man hvorki sitt eigið nafn eða annað svo hann kemur sér fyrir í útjaðri borgarinnar og reynir að púsla saman lífi sínu.

Kaurismäki vakti heimsathygli fyrir myndina Leningrad Cowboys Go America 1989 og fylgdi henni eftir með myndinni I Hired a Contract Killer sem kom út árið 1990 og vann finnsku Jussi kvikmyndaverðlaunin. Myndin The Man Without a Past kom út 2002 og var verðlaunuð um allan heim og var m.a. framlag Finna til Óskarsverðlauna. Myndirnar hans eru gjarnan mjög dökkar og þunglyndislegar en um leið fullar af húmor og rómantík.

Bestu kveðjur frá stjórninni, sem vonast til að sjá sem allra flesta á sýningunum í vetur
Sóley Björk Stefánsdóttir, formaður KvikYndis

Leave a Reply