Le Havre í Samkomuhúsinu á mánudagskvöld

Þá er komið að annarri klúbbsýningu KvikYndis þetta haustið en það er myndin Le Havre eftir Aki Kaurismäki sem verður sýnd nú á mánudaginn, 5. nóvember kl. 20 í Samkomuhúsinu.

Myndin sem var sýnd á síðustu sýningu, The Man Without a Past eftir Kaurismäki, vakti mikla lukku og áhugi vaknaði á að sjá þessa nýjustu mynd meistarans.

Eins og Hannes Óli fræddi okkur um í eftirspjallinu á síðustu sýningu þá leika sömu leikarar í flestum myndum Kaurismäki og þrátt fyrir að Le Havre sé á frönsku þá eru þar sömu finnsku leikararnir og í hinum myndunum, og sami góði húmorinn líka.

Le Havre fjallar um Marcel sem býr í hafnarborginni Le Havre. Konan hans veikist alvarlega og fyrir einstaka tilviljun verður á vegi hans ungur flóttamaður frá Afríku. Marcel þarf í kjölfarið að klífa kaldan vegg afskiptaleysis með meðfædda jákvæðnina og samstöðu fólksins í hverfinu að vopni.

Myndin var sýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í fyrra þar sem hún var tilnefnd til Gullna pálmans og hlaut þar mjög góðar viðtökur og tvenn verðlaun en einnig var hún sýnd á RIFF, Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Reykjavík, þar sem hún hlaut áhorfendaverðlaun hátíðarinnar. Le Havre hefur verið tilnefnd til fjölmargra annarra verðlauna og unnið stóran hluta þeirra.

Hér er umfjöllun um myndina á vefnum IMDB þar sem hún hlýtur 7.2 í einkunn en á vefnum Rotten tomatoes hlýtur hún einnig mjög góða dóma.

Hér er hægt að horfa á stiklu úr myndinni

Sýningin hefst kl. 20, ekkert hlé verður gert á myndinni en veitingar seldar fyrir sýningu sem og eftir sýningu áður en eftirspjall hefst í Borgarasalnum.

Látið endilega sem flesta vita af sýningunni því ekki er víst að allir áhugasamir séu komnir á póstlistann

Leave a Reply