Franska kvikmyndahátíðin 2013 í Borgarbíói

Franska kvikmyndahátíðin verður haldin í 3. sinn á Akureyri helgina 1.- 3. febrúar 2013. Fjórar ólíkar gæðamyndir verða í boði, sem hafa nú þegar fengið góðar viðtökur á hátíðinni í Reykjavík.

Opnunarmyndin, Ryð og bein, skartar óskarsverðlaunaleikkonunni Marion Cotillard í aðalhlutverki. Myndin er eftir Jacques Audiard og hefur verið lofuð í frönskum miðlum og erlendis og fengið gríðargóða aðsókn. Kvikmyndin fjallar um viðkvæmni mannlegs lífs og höfðar auðveldlega til ólíkra hópa. Í aðalhlutverkinu er Marion Cotillard, óskarsverðlaunahafi árið 2008 fyrir einstaka túlkun sína á Edith Piaf.

Myndinni hefur verið líkt við Intouchables, sem sló nýlega í gegn á Íslandi, þar sem hún fjallar um tvo einstaklinga sem tengjast böndum þrátt fyrir að vera af gjörólíkum félagslegum og fjárhagslegum bakgrunn.

Upplýsingar um myndina á IMDB
Stikla úr myndinni

Ást er mynd sem aðdáendur góðra kvikmynda mega ekki missa af. Hún nú ofarlega á lista yfir mögulega handhafa Óskarsverðlauna, m.a. fyrir bestu mynd. Hér eru á ferðinni Jean-Louis Trintignant og Emmanuelle Riva, tvær goðsagnir franskra kvikmynda, í fallegri sögu um ástina þegar ævinnar sól hnígur til viðar. Myndinni, sem hlaut Gullpálmann í Cannes síðasta vor og hefur sópað að sér fleiri verðlaunum, var leikstýrt af Michael Haneke.

Upplýsingar um myndina á IMDB
Stikla úr myndinni

Grínið á hátíðinni er að sjálfsögðu á sínum stað, en Jarðarförin hennar ömmu ætti að kitla hláturtaugarnar, jafnvel hjá þeim brúna­þyngstu.

Amma er dáin. Berthe er ekki lengur hér. Armand var eiginlega búinn að gleyma ömmu sinni. Hann er lyfjafræðingur og vinnur ásamt konu sinni, Hélène, í apóteki í Chatou, rétt utan Parísar. Í lyfjaskápnum felur Armand töfradótið sitt af því að hann er í leyni að undirbúa atriði fyrir afmæli dóttur ástkonu sinnar Alex. En hvernig passer amma inn í þetta allt? Á að jarða hana eða brenna? Hver var Berthe?

Upplýsingar um myndina á IMDB
Stikla úr myndinni

Yngsta kynslóðin mun fylgjast hugfangin með tveimur börnum uppgötva töfra mýrar­innar í myndinni Griðastaður,  en myndin er einskonar blanda af náttúrlífsmynd og fjölskyldu- og barnamynd.

Afskekkt mýri. Tvö einmana börn heillast af ósnortinni náttúrunni, sem verður til þess að þau tengjast smám saman vinaböndum og læra að takast á við lífið framundan. Með þeirra augum og ímyndunarfli verður mýrin að leyndu konungsríki undursamlegu og ógnvekjandi í senn, byggðu verum drauma eða martraða. Börnunum er þetta skammvinn en áhrifamikil vígsla sem lætur þau ekki ósnortin.

Upplýsingar um myndina á IMDB
Stikla úr myndinni

Myndirnar verða allar sýndar í Borgarbíói

Föstudagur
17:50 – Ryð og bein

Laugardagur
14:00 – La Clé des Champs
16:00 – Adieu Berthe
17:50 – Amour

Sunnudagur
14:00 – La Clé des Champs
16:00 – Adieu Berthe
17:50 – Amour

Á fésbókarsíðu hátíðarinnar, www.facebook.com/franskabio, er að finna upplýsingar um myndirnar og sýnishorn úr myndunum. Þar er einnig hægt að deila upplifun sinni af myndunum og eiga þess þannig kost að vinna flug til Parísar og heimsókn í glænýtt kvikmyndaver Luc Besson, La Cité du Cinéma! Frekari upplýsingar á síðunni.

Leave a Reply