Das Leben der Anderen og málþing hjá LA

Þriðjudaginn, 19. mars, kl. 20:00 sýnir KvikYndi þýsku verðlaunamyndina Das Leben der Anderen (2006) í Samkomuhúsinu. Myndin hefur hlotið 66 verðlaun og þar á meðal óskarsverðlaun sem besta erlenda myndin.

Efni myndarinnar: Snemma á 8. áratugnum í Austur-Þýskalandi njóta leikskáldið Georg Dreyman og sambýliskona hans, leikkonan Christa-Maria Sieland, mikillar hylli í landinu, en á laun eru þau ekki alltaf sammála stefnu kommúnistaflokksins sem öllu ræður þar í landi. Dag einn fær menningarmálaráðherrann áhuga á Christu og er þá leyniþjónustustarfsmanninum Wiesler falið að hefja eftirlit með parinu. Í fyrstu lítur Wiesler á þetta sem venjulegt verk en það líður ekki á löngu áður en hann þarf að gera upp við sig hvar hollusta sín liggur.

Umsögn af vef Bíó Paradís: Líf annarra er mögnuð kvikmynd sem hefur farið sigurför um heiminn. Auk þess að hljóta Óskarsverðlaunin sem besta kvikmyndin á erlendu tungumáli árið 2007 hefur hún hreppt 33 önnur verðlaun á kvikmyndahátíðum um allan heim og verið tilnefnd til tíu annarra.

Aðgangur er ókeypis. Að sýningu lokinni mun Ágúst Þór Árnason leiða umræður um myndina.

Sýningin fer fram í Samkomuhúsinu og er í tengslum við málþing sem Leikfélag Akureyrar stendur fyrir fimmtudaginn 21. mars.

Á málþinginu, sem ber yfirskriftina „Hver er kaktusinn í okkar samfélagi“ munu meðal annars lögfræðingarnir Katrín Oddsdóttir og Aðalheiður Ámundadóttir ræða mannréttindamál út frá leiksýningunni Kaktusinn sem sýnd er um þessar mundir hjá LA. Málþingið er ókeypis og öllum opið.

Fimmtudaginn 21. mars heldur Leikfélagið félagsfund þar sem leikárið 2013-14 verður kynnt. Félagsfundurinn er opinn öllum félagsmönnum en hægt er að skrá sig í félagið á netfanginu midasala@leikfelag.is.

Allir þessir viðburðir fara fram í Samkomuhúsinu.

Leave a Reply