Klaufabárðarnir og fleiri teiknimyndir sýndar í Rósenborg

klaufabárðarnir-200x300Það eru margir sem muna eftir teiknimyndunum um Klaufabárðana sem sýndar voru í sjónvarpinu fyrir þónokkuð mörgum árum. Um næstu helgi gefst Akureyringum og nágrönnum tækifæri til að fara með börnin í Rósenborg og endurupplifa Klaufabárðana ásamt fleiri pólskum og tékkneskum teiknimyndum. Það er Alþjóðastofa sem stendur fyrir sýningunum sem fram fara í sýningarsal Ungmenna-Hússins á fjórðu hæð í Rósenborg.

Teiknimyndirnar eru allar án tals og því er hvorki pólsku- né tékkneskukunnátta nauðsynleg til þess að njóta þeirra. „Þessar teiknimyndir höfða bæði til barna og fullorðinna, þær eru svolítið öðruvísi en nútíma teiknimyndir, allar tilfinningar eru túlkaðar með tónlist eins og tíðkaðist á þessum tíma, en myndirnar eru allar framleiddar á tímabilinu 1963-83,“ segir Eva María Ingvadóttir, verkefnastjóri hjá Alþjóðastofu sem heldur utan um sýningarnar.

„Það verða sýningar bæði laugardag og sunnudag kl. 16 og það verður frítt inn. „Það er ekkert ofbeldi og engin læti í þessum myndum og þær hafa menntunarlegt gildi,“ segir Eva María.

Á skjánum í Rósenborg verða ævintýri hins Hugmyndaríka Dobromirs (Pomysłowy Dobromir) og Galdrablýantsins (Zaczarowany ołówek) frá Póllandi auk Klaufabárðanna (Pat a Mat) og Moldvörpunnar (Krtek) frá Tékklandi.

Klaufabárðarnir voru sýndir á RÚV á níunda áratugnum en það eru nágrannarnir Pat og Mat sem taka sér allskyns verkefni fyrir hendur og leysa þau eins og þeim einum er lagið; með jákvæðni fremst í fararbroddi og í rólegheitum, en ekkert endilega á sem skilvirkastan hátt til að byrja með!

Moldvarpan er ekki hrædd við að kanna hið óþekkta sem leynist rétt hjá holunni hennar og er áhugasöm um þau tæki, tól og persónur sem á vegi hennar verða.

Í Galdrablýantinum nýta Pétur og hundurinn hans sér hjálp þessa einstaka skriffæris í ýmsum aðstæðum; allt sem Pétur teiknar verður að alvöru hlutum!

Hinn snjalli og hugmyndaríki Dobromir býr með afa sínum og vini sínum, starranum, úti á landi. Þrátt fyrir ungan aldur er Dobromir laginn við að setja saman vélar og tæki, sem hann síðan notar á heimilinu við misjafnar undirtektir afa síns.

Skipulagning sýningarinnar er í höndum Alþjóðastofu og er viðburðurinn haldinn í samstarfi við Ungmenna-Húsið, Akureyrarstofu, kvikmyndaklúbbinn KvikYndi og Félag Pólverja á Akureyri.

Leave a Reply