Texti á myndunum

Eitthvað voru upplýsingar á reiki um hvaða myndir væru með íslenskum og hvaða myndir með enskum texta en nú er það alveg komið á hreint. Opnunarmyndin og myndin á laugardagskvöldið (Miele) eru með enskum texta en myndirnar á föstudag (Oh boy) og sunnudag (Childs pain) eru með íslenskum texta.

Dagskrá Evrópskra kvikmyndadaga:

Fimmtudagur 24. okt. kl. 20:00
The Broken Circle Breakdown (Belgía / Holland 2012)
111 MÍN. – ENSKUR TEXTI.
LEIKSTJÓRI: Felix Van Groeningen.
AÐALHLUTVERK: Veerle Baetens, Johan Heldenbergh, Nell Cattrysse.
The Broken Circle Breakdown er nýjasta mynd leikstjórans Felix van Groeningen. Myndin er byggð á vinsælu samnefndu leikriti eftir Johan Heldenbergh og Mieke Dobbels og segir sögu Elise og Didier, tveggja mjög svo ólíkra einstaklinga sem kynnast fyrir tilviljun. Þau verða ástfangin, gifta sig og Elise verður óvænt ólétt. Þegar barn þeirra greinist með ólæknandi sjúkdóm reynir á samband þeirra. Myndin hefur farið sigurför um Evrópu og meðal annars hlotið verðlaun fyrir bestu evrópsku myndina af Europa Cinemas Label og áhorfendaverðlaun Berlinale 2013. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2013.
Stikla hér á Youtube

Föstudagur 25. okt. kl. 18:00
Oh Boy (Þýskaland 2012)
85 MÍN – ÍSLENSKUR TEXTI.
LEIKSTJÓRI: Jan Ole Gerster.
AÐALHLUTVERK: Tom Schilling, Katharina Schüttler, Justus von Dohnányi.

Oh Boy er margverðlaunuð þýsk grínmynd frá 2012 og er frumraun leikstjórans Jan Ole Gerster. Myndin er svarthvít og segir frá sólarhringi í lífi Niko, ungs manns sem er atvinnulaus og hættur í námi, þar sem hann rekur stefnulaust um götur Berlínar og allt virðist ganga á afturfótunum. Myndin hefur hlotið fjöldann allan af verðlaunum, meðal annars virtustu verðlaun þýska kvikmyndaiðnaðarins, Lola verðlaunin, 2013 fyrir bestu myndina, besta handrit, besta leikara í aðalhlutverki (Tom Schilling), besta aukaleikara (Michael Gwisdek) og bestu kvikmyndatónlistina. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2013.

Laugardagur 26. okt. kl. 18:00
Hunang (Miele) (Frakkland / Ítalía 2013)
100 MÍN – ENSKUR TEXTI
LEIKSTJÓRI: Valeria Golino.
AÐALHLUTVERK: Jasmine Trinca, Carlo Cecchi, Libero De Rienzo.

Irene býr ein og lifir heldur einangruðu lífi. Hún vinnur við aðhlynningu dauðvona fólks og aðstoðar það m.a. með lyfjagjöfum. Dag einn þá gefur hún sjúklinginum Grimaldi sem er nýlagstur inn of stóran lyfjaskammt til þess eins að sannreyna það að að hann sé í raun og veru langt frá því að vera veikur. Samband Irene og Grimaldi er þrungið spennu og þróast á þann veg að líf hennar verður aldrei samt. Myndin hlaut verðlaun á kvikmyndahátíðinni í Cannes árið 2013. Hún er einnig tilnefnd til Lux verðlaunanna árið 2013.

Sunnudagur 27. okt. kl. 18:00
Kvöl (Child‘s Pose) (Rúmenía 2012)
112 MÍN – ÍSLENSKUR TEXTI
LEIKSTJÓRI: Călin Peter Netzer.
AÐALHLUTVERK: Luminita Gheorghiu, Bogdan Dumitrache, Natasa Raab.

Kvöl er rúmensk kvikmynd eftir leikstjórann Călin Peter Netzer. Myndin segir sögu Corneliu, stjórnsamrar móður sem sér sér leik á borði til að ná stjórn á fullorðnum syni sínum eftir að hann er ákærður fyrir manndráp. Myndin var frumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín þar sem hún hlaut hin virtu Golden Bear verðlaun árið 2013.

Leave a Reply