Barnasýningar í Rósenborg

1396569_10151812212117800_895978688_n

Um næstu helgi, dagana 9. og 10. nóvember, verða barnasýningar á pólskum teiknimyndaþáttum í sýningarsal Ungmenna-Hússins á 4. hæð Rósenborgar. Eins og í september verða myndirnar allar án tals og því er pólskukunnátta ekki nauðsynleg til þess að njóta þeirra. Athugið að frítt verður inn, sýningar byrja kl. 16 bæði á laugardag og sunnudag og er sýningartími um 45 mín.

Aðalpersónurnar sem birtast á tjaldinu að þessu sinni, Bolek og Lolek, eru hugarfóstur leikstjórans Wladyslaws Nehrebecki sem fékk í lið með sér nokkra teiknara, hljóðmenn og tónskáld og framleiddi fyrsta þáttinn um þá bræður árið 1963 – þeir eiga því 50 ára afmæli á þessu ári. Sagan hermir að synir Nehrebeckis, sem sjálfir voru á þessum tíma á aldrinum 10-12 ára, hafi orðið föður sínum innblástur fyrir persónurnar. Auk þess var hann hrifinn af sögum Jules Verne og átti það til að styðjast við söguþræði úr bókum hans, t.d. Umhverfis jörðina á 80 dögum, við gerð einstakra þátta.

Eftirfarandi þættir verða sýndir um næstu helgi:

Neðansjávarferðalagið: Bolek og Lolek byggja kafbát um skoða nærliggjandi vatnasvæði. Þeir taka fljótt eftir mengun og rusli í vatninu og átta sig á að verksmiðja í nágrenninu dælir út í það óhreinsuðum úrgangi. Bræðurnir taka málin í sínar hendur og koma eigendum í skilning um að þeir verði að byrja að axla umhverfisábyrgð!

Laganna verðir: Við fylgjumst með ævintýrum Bolek og Lolek í villta vestrinu og tilraunum þeirra til þess að handsama bankaræningjann Pif Paf með hjálp snalls hests.

Á Pólýnesíueyjum: Bolek og Lolek ferðast um Eyjaálfu, kynnast heimamönnum eftir að þeir bjarga þeim undan soltnum hákarli, kafa eftir perlum og fá að lokum óvænta hjálp frá kolkrabba.

Platafinn: Bolek og Lolek halda af stað í útilegu. Þegar Bolek tekur eftir fuglahræðu á nærliggjandi engi, sér hann sér leik á borði og dulbýr sig sem gamlan bónda. Í dulargervi sínu skipar hann Lolek fyrir um ýmis heimilisstörf á nærliggjandi bóndabæ. Lolek lætur plata sig og er allur af vilja gerður til þess að hjálpa “gamlingjanum”. Að lokum kemst þó upp um Bolek og þá launar Lolek honum á svipaðan máta. Stríðni þeirra í garð hvor annars leiðir þó að lokum til góðra verka.

Skipulagning sýningarinnar er í höndum Alþjóðastofu og er viðburðurinn haldinn í samstarfi við Ungmenna-Húsið, kvikmyndaklúbbinn KvikYndi, Félag Pólverja á Akureyri. Þar að auki eru sýningarnar studdar af Sendiráði Lýðveldisins Póllands í Reykjavík og þættirnir sýndir með góðfúslegu leyfi pólska framleiðslufyrirtækisins Studio Filmów Rysunkowych (Stúdíó teiknimyndanna).

Leave a Reply