Frönsk kvikmyndahátíð

franskaFranska kvikmyndahátíðin mun fara fram á Akureyri dagana 16.-19. mars. Athugið að aðgangur er ókeypis á alla hátíðina – fjölmennum í Hof!  Vakin er athygli á að allar myndirnar verða sýndar með enskum texta.

Opnunarmyndin í ár er teiknimyndin Málverkið – ljóðræn dæmisaga um lifandi verur í listaverki í leikstjórn Jean Francois Laguinoie. Ávörp flytja sendiherra Frakklands á Íslandi og bæjarstjóri Akureyrar.

Dagskrá hátíðarinnar er eftirfarandi:

Sunnudaginn 16. mars

Kl. 15.00 Málverkið (opnunarsýning) 
Kl. 17.00 Prinsessan frá Montpensier 
Kl. 19.00 Hinir ósýnilegu

Mánudaginn 17. mars

Kl. 17.00 Kirikou og galdrakerlingin
Kl. 19.00 Að vera og hafa
Kl. 21.00 Prinsessan frá Montpensier

Þriðjudaginn 18. mars

Kl. 17.00 Málverkið 
Kl. 19.00 Kirikou og galdrakerlingin
Kl. 21.00 Hinir ósýnilegu

Miðvikudaginn 19. mars

Kl. 17.00 Að vera og hafa
Kl. 19.00 Málverkið
Kl. 21.00 Prinsessan frá Montpensier

Um myndirnar

Heimildarmyndirnar Etre et Avoir / Að vera og hafa eftir Nicolas Philibert, sem er gamanmynd og um leið áhrifamikil kvikmynd um lífið í litlum grunnskóla í Auvergne, og Les Invisibles / Hinir ósýnilegu eftir Sébastien Lifshitz, sem er hjartnæm og einlæg mynd um samkynhneigð eldri pör og þær áskoranir sem við þeim blasa.

Teiknimyndirnar Le Tableau / Málverkið eftir Jean Francois Laguinoie (opnunarmynd hátíðar), sem er ljóðræn dæmisaga um feril listamannsins, og hin alkunna mynd Kirikou et la Sorcière / Kirikou og galdrakerlingin eftir Michel Ocelot, en þar er um að ræða afrískt ævintýri með fallegri atburðarás og frábærri tónlist Youssou N´Dour.

Loks verður sýnd kvikmynd Bertrand Tavernier La Princesse de Montpensier /Prinsessan af Montpensier með Lambert Wilson og Mélanie Thierry. Myndin er byggð á samnefndri sögu Madame de Lafayette og er ástarsaga, sem gerist á tímum trúarbragðastyrjalda í Frakklandi.

Nánari upplýsingar má auk þess finna á www.visitakureyri.iswww.fff-is.com og www.menningarhus.is.

Leave a Reply