Evrópa hlær í Ketilhúsinu á Akureyrarvöku

absurdistanÍ tilefni Akureyrarvöku 2014 verða þrjár bíómyndir sýndar án aðgangseyris í Ketilhúsinu dagana 29.-31. ágúst kl. 17. Myndirnar eiga það sameiginlegt að fjalla á gamansaman, nokkuð ádeilukenndan, en umfram allt mannlegan hátt um samskipti innflytjenda og innfæddra í Evrópu.

Opnunarmyndin, Geboren in Absurdistan (Fædd í Absúrdistan), frá Austurríki, fjallar um hugsanlegan rugling á fæðingardeild í Austurríki á barni tyrknesks verkafólks, sem stendur til að vísa úr landi, og barni starfsmanns austurríska útlendingaeftirlitsins. Myndin verður sýnd föstudaginn 29. ágúst kl. 17. Sjá nánari upplýsingar á imdb.com

Sivi kamion crvene boje (Rauðlitaður grár trukkur) frá Serbíu og Svartfjallalandi fjallar um ferðir litblinds bosnísks sveitagervitöffara með vörutrukkadellu og litríkrar, óléttrar rokksöngkonu frá Belgrad um lönd Júgóslavíu við upphaf borgarastyrkjaldarinnar. Myndin verður sýnd laugardaginn 30. ágúst kl. 17. Sjá nánari upplýsingar á imdb.com

Síðasta myndin, Shouf Shouf Habibi (Uss, uss elskan), frá Hollandi fjallar svo um marokkóska fjölskyldu sem gengur misvel að aðlaga sig hollenskum siðum og venjum. Myndin verður sýnd sunnudaginn 31. ágúst kl. 17. Sjá nánari upplýsingar á imdb.com

Allar myndirnar verða sýndar með enskum texta og eru í boði kvikmyndaklúbbsins KvikYndi, Listasafnsins á Akureyri, Alþjóðastofu, Borgarbókasafns Reykjavíkur og Goethe stofnunarinnar í Danmörku.

Aðgangur er ókeypis á allar sýningarnar.

Leave a Reply